Um helgina birtist auglýsing um útboð á veiðirétti í einni af betri sjóbirtingsám landsins, Tungufljóti í vestur Skaftafellssýslu. SVFR hefur um árabil haft Tungufljót á leigu. Í gegnum árin hefur áin verið mjög eftirsótt hjá veiðimönnum, enda geymir Tungufljót marga birtinga í stærri kantinum. Síðustu ár hefur þó dregið úr eftirspurn í ánna, sérstaklega sökum mikilla hækkana á verði veiðileyfa.
Í auglýsingunni með útboðinu kemur fram að verið er að leita að tilboðum í veiðirétt áranna 2014 til 2018. Frestur til að skila tilboðum rennur út 28. ágúst og verða tilboðin opnuð þann 31. ágúst. Veitt hefur verið með 4 stöngum í Tungufljóti og leyfilegt agn hefur verið fluga, maðkur og spúnn.