Nú í vetur og haust hefur dálítil hreyfing orðið á veiðirétti nokkurra rótgróinna veiðisvæða. Annað hvort hafa veiðifélög farið útboðsleiðina eða farið þá leið að leita samninga við nýja, hentuga leigutaka. Í dag birtist frétt þess efnis að Veiðifélag Eldvatns í Meðallandi óski eftir tilboðum í silungveiði á því svæði, á árabilinu 2013-2019. Hér að neðan er tilkynningin frá veiðifélaginu:
Útboð á silungsveiði í Eldvatni í Meðallandi.
Veiðifélag Eldvatns í Meðallandi óskar hér með eftir tilboðum í silungsveiði í Eldvatni í Meðallandi fyrir árin 2013 til 2019, að báðum árum meðtöldum, samkvæmt meðfylgjandi útboðsskilmálum og fyrirliggjandi upplýsingum. Eingöngu er heimil fluguveiði. Leyfð er veiði á sex stangir, veiðitími er 1. apríl til 10. október ár hvert.
Útboðsgögn verða afhent frá 2. janúar 2013 á skrifstofu Bændasamtaka Íslands Bændahöllinni við Hagatorg sími 563 0300 og hjá formanni Veiðifélags Eldvatns í Meðallandi.
Tilboðum skal skila til formanns Veiðifélags Eldvatns, Jóns Sigurgrímssonar, Skipasundi 2, 104 Reykjavík, merkt útboð Eldvatn í Meðallandi, fyrir kl. 13:00 föstudaginn 25. janúar 2013.
Tilboðin verða opnuð laugardaginn 26. janúar 2013 kl. 14:00 í veiðihúsi Eldvatns í Meðallandi í viðurvist þeirra bjóðenda sem þess óska.
Réttur áskilinn til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.
Formaður Veiðifélags Eldvatns í Meðallandi
Jón Sigurgrímsson