Við sögðum um daginn frá útboði í veiðirétt í Fossá í Þjórsárdal. Um 20 tilboð bárust þar sem Hreggnasi var með hæsta boð, uppá 8,5 m.kr. fyrir allan útboðstíman, 2013-2016. Um mikla hækkun var að ræða frá fyrri samningi sem var fyrir árin 2009-2012.
Veiðiréttarhafar hafa tekið ákvörðun um að ganga til samninga við Hreggnasa um leigu á Fossá næstu árin. Ýmiss áform eru uppi um að bæta aðgengi og aðbúnað við ána. Til stendur að reisa veiðihús sem vonandi verður tilbúið þegar veiðivertíðin hefst. Tíminn er samt knappur, svo í ljós þarf að koma hvort það takist. Margir hafa haft áhyggjur að því að verð veiðileyfa hækki við þennan nýja samning en Jón Þór hjá Hreggnasa neitar því. Í fyrra kostaði dýrasti tíminn í Fossá um 25.000 kr. pr. stangardag en Jón Þór reiknar með að í sumar muni stöngin kosta á bilinu 8-25.000 kr., eftir tíma og við bætist góð aðstaða fyrir veiðimenn. Því verður ekki um neina hækkun að ræða, heldur frekari lækkun ef menn meta þá aðstöðu sem komið verður upp.
En Fossá er ekki eina útboðið sem Hreggnasi hefur tekið þátt í á þessu ári. Félagið skilaði einnig inn tilboði í Eldvatn í upphafi ársins. Í því útboði skiluðu 3 aðilar inn tilboðum og var tilboð Hreggnasa það lægsta sem barst. Inní í tilboðinu frá Hreggnasa voru ræktunarákvæði. Ekki eru miklar líkur á að Hreggnasi nái Eldvatni undir sína regnhlíf. Hreggnasi er þó augljóslega á höttunum eftir ákjósanlegum veiðisvæðum til að auka það framboð sem þeir nú þegar geta boðið uppá. Að sögn Jón Þórs þá hafa bókanir gengið vel á þeirra svæðum fyrir komandi veiðitímabil.
Þau svæði sem Hreggnasi er leigutaki að í dag eru: Laxá í Kjós, Grímsá og Tunguá, Svalbarðsá, Úlfarsá(Korpa) og Krossá. Samtals er félagið með um 2.400 stangardaga í íslenskum ám.