Vatnamótin er eitt besta og gjöfulasta veiðisvæði á Íslandi. Þar veiðist aðallega sjóbirtingur og iðulega veiðast fiskar um og yfir 20 pundin. Eins og venja er á sjóbirtingsslóðum á suðurlandi, þá hefst veiðin í byrjun apríl. Við sögðum frá því um daginn að opnunarhollið á svæðinu hefði verið með 44 fiska. Nú liggja tölur fyrir, fyrir fyrstu átta daga tímabilsins.

Veðrið þessa fyrstu daga apríl mánaðar hefur verið upp og ofan eins og oft er á þessum árstíma. Það hefur hinsvegar ekki haft mikil áhrif á veiðina því hún hefur flesta daga verið stórfín, þó stundum hafi veiðimenn þurft að hafa fyrir hlutunum. Samtals eru komnir um 160 fiskar á land í Vatnamótunum. Flestir fiskar komu hjá hollinu sem kláraði nú á sunnudaginn. Það var með rúmlega 70 fiska skv. Ragnari í Hörgslandi.

Nú í lok apríl eru nokkrir lausir dagar í Vatnamótunum. Sá tími hefur í gegnum tíðina gefið mjög góða veiði.

[email protected]