Haustið minnir rækilega á sig í dag – en það er ekki síður á svona dögum sem ævintýrin gerast í veiðinni, hvort sem er á sjóbirtings eða stórlaxaslóðum. Myndin hér til hliðar er af 93 cm hæng sem Hörður Filipsson veiddi nú í morgun í Vatnsdalsá. Tröllið tók 1“ Black and Blue túpu í Þórhöllustaðarhyl. Myndina tók Orri Stefánsson.
Eins og sést á myndinni þá eru aðstæður heldur kuldalegar enda gengur nú yfir landið fyrsta alvöru haustlægðin með gríðarlegu hvassviðri og ófærð víða um land. Veiðimenn láta slíkt samt ekki stoppa sig, enda gerast ævintýrin oft við þessar aðstæður.