Veiðin fer ágætlega af stað nú fyrstu daga vertíðarinnar í Hlíðarvatni í Selvogi þó svo að kuldi á upphafsdögum mánaðarins hafi sett strik í reikninginn. Samtals er veitt með 14 stöngum í vatninu á vegum 5 stangaveiðifélaga. Flestar stangir eru á hjá Stangveiðifélagi Hafnafjarðar eða 5 stangir. Uppúr hádegi var búið að skrá 25 bleikjur í veiðibókina hjá Hafnfirðingum og hafa flestar þeirra komið á síðustu 3 dögum.
Við höfum heyrt af bærilegri veiði hjá öðrum félögum en ekki fengið staðfestar tölur. Ef tala SVH er umreiknuð yfir á allt vatnið má áætla að á bilinu 60-70 bleikur séu skráðar í bækurnar fimm. All margar af þessum bleikjum eru í stærri kantinum fyrir Hlíðarvatn, eða á bilinu 2,5-5 pund. Um helgina bárust m.a. fréttir af 4 bleikjum sem voru á bilinu 4-5 pund.
Framundan er ágæt veðurspá fyrir suðurlandið; hægviðri, smá væta og hiti rétt undir 10°. Þeir sem eru að fara í fyrsta skiptið í vatnið ættu endilega að undirbúa sig vel, lesa lýsingar og greinar sem hafa verið skrifaðar um vatnið eða hringja í kunnuga menn á svæðinu.
Hér inni á veiða.is er lausar stangir í vatnið. Aðstæður eru fínar í húsi þeirra félaga í Árbliki og tilvalið fyrir félaga eða fjölskyldur að skella sér í veiðitúr í vatnið. Sjá nánar hér.