Góð veiði í Hlíðarvatni í vor hefur vakið athygli margra og ekki síst vegna þess hversu veiðin var slök í fyrra. Sumarið 2012 veiddust samtals 725 bleikjur í Hlíðarvatni í Selvogi á þeim 150 dögum sem veiðitímabilið náði yfir. Nú má ætla að hátt í 500 bleikjur hafi verið skráðar í bækurnar 5 hjá þeim stangaveiðifélögum sem fara með veiðirétt í vatninu, á þeim 19 dögum sem liðnir eru af veiðitímanum.
Á veiða.is er hægt að nálgast veiðileyfi í Hlíðarvatni, þau leyfi sem Stangaveiðifélagið Árblik í Þorlákshöfn hefur til ráðstöfunar. Árblik selur 2 dagstangir ásamt veiðihúsi. Í gær var samtals búið að skrá 77 bleikjur í bókina hjá Árblik. Ef reynt er að nálgast heildarveiði útfrá þessari tölu má varlega áætla að þær 14 stangir sem leyfðar eru í vatninu, hafi landað hátt í 500 bleikjum frá 1. maí. Ef litið er framhjá veiðinni í fyrra, þá má sjá að flest undanfarin ár hafa vel yfir 2 þús bleikjur veiðst á sumri. Því má telja líklegt, ef litið er til veiðinnar í ár, að veiðin í fyrra hafi verið einstakt tilfelli.
Ef rýnt er nánar í veiðibókina hjá Árblik má sjá að 35 bleikjur hafa komið á Engjafluguna, 10 á Peacock, 9 á Guðmann og 7 á Taylor.
Nú er góður tími framundan í Hlíðarvatni, þegar fer að hlýna enn frekar og sólardögunum fjölgar. Við bíðum spenntir eftir að sjá hvort þessi góða veiði haldi ekki áfram. Hér að neðan eru nokkrar af þeim boltableikjum sem veiðst hafa í vatninu í sumar.
{gallery}bleikja{/gallery}