Veiðifélögin sem eiga aðild að Hlíðarvatni í Selvogi komu saman í byrjun nóvember til að bera saman bækur sínar eftir sumarið. Alls voru bókaðar 764 bleikjur í vatninu í sumar sem er um 8% minni afli en í fyrra. Veðufar setti strik í veiðina og veiðisóknina en þess má geta að í júlí var enginn bleikja bókuð hjá SVH og eingungis 9 bleikjur hjá Ármönnum. Þessi 2 félög fara með 8 stangir af 14 sem leyfðar eru í vatninu. Í ágúst virtust fleiri sækja vötnin heim ég vegum þessara félaga en samtals voru þá bókaðar 115 bleikjur í bækur þeirra tveggja.

Það hefur löngum borið við í Hlíðarvatni, eins og víða annarstaðar, að veiðimenn „gleymi“ að færa aflann til bókar og sumir bóka ekki bleikjur undir 25 cm og aðrir bóka ekki fiska sem þeir sleppa. Við hvetjum alla til að færa allan fiska til bókar, hvar sem menn eru að veiða.

Ef horft er til skiptingar afla eftir mánuðum þá komu flestar bleikjur á land í maí, eða 294. 180 bleikjur veiddust í júní og 155 í Ágúst.

Hlíðarvatn í Selvogi er á milli Þorlákshafnar og Krýsuvíkur. Fimm veiðifélög skipta veiðidögum með sér í vatninu. Stangveiðifélag Hafnafjarðar er með 5 stangir, Ármenn 3, Stangveiðifélag Selfoss 2, Stangaveiðifélagið Stakkavík 2 og Árblik í Þorlákshöfn er með 2 stangir í vatninu. Hvert og eitt veiðifélag er með veiðihús á sínum snærum sem veiðimenn geta nýtt þegar þeir eru við vatnið.

info at veida.is