Veiðin í Hlíðarvatni var ágæt í sumar, alls ekki eins og hún gerist best, en þó vel ásættanleg að teknu tilliti til ástundunar. Það eru 5 veiðifélög sem selja veiðileyfi í Hlíðarvatn, en samtals eru seld að hámarki 14 veiðileyfi á degi hverjum. Hér inni á veiða.is má finna veiðileyfi sem Stangaveiðifélagið Árblik á rétt á, samtals 2 stangir pr. dag. Skráð veiði í veiðibók Árbliks í sumar var 254 fiskar en í heildina voru 928 fiskar skráðir í bækur félagana.

Heyrst hefur að hjá sumum veiðifélögunum sem veiða í Hlíðarvatni, hafi ástundunin verið fremur döpur, ekki síst yfir hásumarið, í júlí og í ágúst. Það sama var ekki uppi á teningnum hjá Veiðifélagi Árbliks, en nýting var mjög góð frá opnun og vel fram í ágúst. Það sést kannski vel á því að þó félagið fari einungis með um 14% þeirra stangardaga sem eru í vatninu, þá veiddu veiðimenn á vegum Árbliks um 28% allra skráðra fiska sem komu úr vatninu í sumar. Af 254 fiskum voru 249 bleikjur og 5 sjóbirtingar.

Þorsteinn J með væna bleikju úr HlíðarvatniÁður en við rennum yfir helstu tölur úr veiðibók Árbliks, þá viljum við nefna það að við heyrðum í nokkur skipti af veiðimönnum sem skráðu ekki þær bleikjur sem þeim fannst „smáar“. Við hvetjum alla veiðimenn til að skrá allan afla en það gefur þeim sem fylgjast grannt með þróun veiðinnar í vatninu, betri mynd af stöðunni í vatninu.

Fengsælustu veiðistaðirnir:
Mosavangi, 81 fiskur
Botnavík 47 fiskur
Hlíðarey 25 fiskur
Gamlavör 22 fiskur

Fengsælustu flugurnar
Peacock, 44 fiskur
Krókur, 29 fiskur
Pheasant tail, 21 fiskur

Stærsti fiskurinn sem skráður var, var 3,1 kg og kom á land á Húsatanga á Ölmu Rún.

info at veida.is