Vignir Arnarson, veiðimaður úr Þorlákshöfn, var svo velviljaður að senda okkur smá veiðisögu úr Brúará. Að sjálfsögðu fögnum við þegar reynsluboltar úr veiðinni eru til í að deila með okkur sögum og fróðleik. Ef einhver vill fá að vita hver leyndarmálin eru í Brúarárveiðinni, þá er þeim velkomið að hafa samband við Vigni.
Lítil veiðisaga úr Brúará.
Þetta gerðist um miðjan júní árið sem nýja brúin var byggð. Ég hafði tekið daginn snemma og farið beint niður á svokallaðan bakka, en það er neðsti veiðistaðurinn, löng lygna með sandbotni gríðarlega krefjandi og skemmtilegur veiðistaður. Það er skemmst frá því að segja að þetta var klárlega minn dagur. Fljótlega tók falleg 3punda bleikja lengst úti, þá var bara að koma henni inn og sjá hvora fluguna hún tók. Og síðan tók hver bleikjan af annarri frá 1-4 pund. Þennan morgun setti ég í 14 bleikjur en hirti bara 6 stk. Þarna var klukkan að verða hádegi svo ég ákvað að fara uppí veiðihús að skrá aflan og fá mér nesti og skoða hvað hefði verið um að vera undanfarið í bókinni. Mjög lítið hafði veiðst og helstu nöfnin í bókinni voru mér kunnug , ( ég sjálfur og þeir sem ég hafði farið með ).
Þá var bara að taka saman og dóla sér heim á leið, en það nagaði mig þó mikið að sjá enga veiði við brúna, sem þó hafði verið einn besti staðurinn í ánni um áratuga skeið, svo að ég ákvað að láta á hann reyna. Vissulega var veiðistaðurinn gjörsamlega í klessu og horfin með öllu vegna brúarsmíðinnar, en andskotinn hafi það, að það hafi ekki einn einasti fiskur komið þar á land síðan hún hófst þótti mér næg ástæða og áskorun til að láta á það reyna.
Ég hjó eftir því þegar ég var að kasta að óvenju mikið magn að rútum fór yfir brúnna, trúlega túristar á leið á geysi. Ég fót út á varnargarðinn sem settur var meðan stöplarnir voru steyptir og skoðaði vel hvernig áin hagaði sér við þessar aðstæður. Þegar ég var kominn niður að svokölluðu horni , sem er rétt ofan við brúna byrjaði ég á því að kasta vel upp fyrir og láta svo reka djúpt út í hylinn. Og viti menn ég fékk þetta líka svakalega högg og hann er á, finn strax að þetta er engin smá fiskur, þarna hlýt ég að hafa sett í það sem ég kalla Brúarár kusu. Það hvín og syngur í hjólinu þegar hún tekur strauið niður ána og það var sko ekki gæfulegt færi, risa stórgrýti og brattur varnargarðurinn, en það hafðist nú á endanum. Þá tók nú ekki betra við fiskurinn var kominn of langt niður til þess að ég ætti séns, vinnuvélar um allt að raða stórbjörgum og báru enga virðingu fyrir einhverjum ½vita með prik í hendi, þetta endaði auðvitað með því að hún sleit ( þ.e.a.s. grafan með grjótið).
Enn ég vissi auðvitað sem var að þarna hefði hún ekki verið ein á ferð og kasta aftur og bingó hann var á og nú var tekið vel á honum og landað á skömmum tíma. Þessi skyldi ekki sleppa niður og viti menn þarna lá 6 punda kusa þétt og fín. Og það skal ég bara segja ykkur að þarna tók ég í beit 12 bleikjur á 1-2 tímum allar 4-7 punda, hirti 6 ef ég man rétt.
Þegar svo ég var að brölta aftur uppá veg kom þar ein af rútunum og stoppaði, full að Kínverjum sem að lintu ekki látunum fyrr en allur afli hafði verið tekinn úr pokunum og mér stillt upp fyrir myndatöku. Þetta var nú frekar fyndið að 50 kínverjar skildu finnast þetta sambærilegt myndefni og Gullfoss og Geysir.
Þegar veitt er í brúará, er best að nota dropper upstream 45° veiði með tökuvara.
Ég mun opna Brúará 1. apríl og mikið er ég farinn að hlakka til. Eins og glöggir hafa séð eru leyfin nú seld hérna á þessum vef og kosta bara klink. Einnig er hægt að kaupa leyfin hjá Áslaugu á Spóastöðum en þetta er ein af þeim síðustu þar sem hægt er að fara heim að bæ til þess að kaupa veiðileyfi, það er einhver ákveðin veiðirómantík yfir því að mínu mati.
Vignir Arnarson
{gallery}bruara{/gallery}
Hér er hægt að finna veiðileyfi í Brúará
Hér eru svo réttu flugurnar til að nota í Brúará (ekki tæmandi listi :-)).