Litlaá í Kelduhverfi er bergvatnsá, sem upprunalega átti sér eingöngu upptök í lindum sem heita Brunnar við bæinn Keldunes. Frá 1976 á hún sér einnig upptök í Skjálftavatni en það myndaðist við jarðsig í Kröflueldum.
Vatnið úr Brunnum er óvenju heitt og blandast kaldara vatni úr Skjálftavatni, þannig er meðalhiti vatnsins í ánni um 12°C. Vaxtahraði fiska í Litluá er mikill undir þessum kringumstæðum og er sjóbirtingsstofn árinnar því einn sá stærsti hér á landi.
Árið 2004 kom á land í Litluá stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur hér á landi, 23 punda ferlíki.
Veiðin undanfarin ár hefur verið mjög vaxandi í Litluá og í Skjálftavatni og hefur „veiða og sleppa“ reglan augljóslega skilað sér í fjölgun fiska og fleiri stórum fiskum. Hér að neðan er smá veiðiskýrsla úr Litluá,
Veiðitölur 2013
Nú liggja fyrir veiðitölur fyrir síðastliðið sumar sem var mjög gott í Litluá, eins og árin á undan. Alls veiddust 1778 fiskar í Litluá og 883 í Skjálftavatni. Þetta er lítilsháttar minnkun í Litluá frá síðasta ári en þá veiddust 1895 fiskar. Í Skjálftavatni veiddust 883 fiskar sem er nokkur aukning frá síðasta ári en þá veiddust 670 fiskar. Á vatnasvæðinu veiddust samtals 2661 fiskar en á síðasta ári veiddust 2565 fiskar. Þetta er um 4% aukning á vatnasvæðinu.
Margir veiðimenn settu í mjög væna fiska í sumar eins og undanfarin sumur. Nokkrir urriðar yfir 80 cm veiddust, um 50 fiskar voru yfir 70 cm og mikill fjöldi yfir 60 cm.
Skipting á tegundir er eftirfarandi, tölur frá 2010, 2011 og 2012 eru með til samanburðar. Fækkun er á veiddum urriðum frá síðasta ári en aukning í veiði á bleikju, bæði í Litluá og í Skjálftavatni. Þess ber að geta að gríðarlega mikil aukning var í urriðaveiði á síðasta ári.
Litlaá | 2013 | 2012 | 2011 | 2010 |
Urriðar | 1391 | 1644 | 1289 | 1038 |
Bleikjur | 379 | 247 | 268 | 202 |
Lax | 8 | 4 | 11 | 4 |
Samtals | 1778 | 1895 | 1568 | 1244 |
Skjálftavatn | 2013 | 2012 | 2011 | 2010 |
Urriðar | 97 | 133 | 43 | 0 |
Bleikjur | 786 | 537 | 222 | 0 |
Lax | 0 | 0 | 0 | |
Samtals | 883 | 670 | 265 | 0 |
Alls | 2661 | 2565 | 1833 | 1244 |