Þó svo að mesta spennan er búin og hljóðnað hefur yfir vötnum og ám í bili, eftir opnanir í vor, þá er enn verið að veiða og smátt og smátt eru svæðin að vakna af vetrardvalanum. Veðrið hefur þó verið risjótt og verður það áfram, ekki síst norðanlands. Veiða.is gerði smá könnun á gangi mála á hinum ýmsu veiðisvæðum og þetta er niðurstaðan.
- Hlíðarvatn – Áfram heyrist af ágætu kroppi í vatninu. Næturfrostið hægir örlítið á tökugleði bleikjunnar en ágæt skot koma inná milli.
- Gíslholtsvatn – Veiða.is heyrði af mönnum sem voru þarna um helgina. Þeir náðu 5 fínum urriðum, flestum á maðk.
- Elliðavatn – Það virðast vera allnokkrir sem skjótast í Elliðavatnið nokkrum sinnum í viku. Þetta eru líklega þeir sömu og eru að ná ágætum árangri í vatninu. Heyrst hefur af fínum bleikjum og urriðum sem eru að koma á land. Mikið eru um uppítökur. Veiðimenn þurfa hinsvegar að búa sig undir það að verða bitnir af mýinu við vatnið og keppa við það um athygli fisksins, en það er komið á fullt.
- Þingvallavatn – Enn heyrist af fínum urriðum sem eru að koma á land en meiri athygli hefur vakið sú aðferð sem sumir beita við að ná athygli urriðans. Af bleikjunni er það að frétta að lítið sést til hennar ennþá.
- Laugarvatn/Apavatn – Fín veiði var í Laugarvatni um og fyrir síðustu helgi. Þá komu um 40 bleikjur úr vatninu með meðalviktina ca. 1 kg. Síðustu daga hefur hinsvegar næturfrostið hægt á tökum og ástundun veiðimanna. Fyrst á vorin veiðist oft mikið af stærri bleikjunni í vatninu en svo þegar líður inní júni, þá færir fiskurinn sig meira niður í Hólaánna, með hækkandi hitastigi vatnsins. Apavatnið hefur lítið verið stundað í vor en sá sem fór síðast náði 8 ágætum urriðum. Urriðinn er ráðandi í vatninu, bleikjan veiðist meira í Hólaánni.
- Brúará – Eins og áður hefur verið nefnt þá hefur ástundunin ekki verið mikil í Brúará það sem af er vori. Helst hefur verið að menn kíki þangað um helgar. Af einum heyrðum við sem var þar um helgina en hann var komin með 3 eða 4 fínar bleikjur eftir ca. 3 klst. veru við ánna. Af því má kannski álykta að veiðin sé að skríða af stað, nú vanti bara fleiri veiðimenn að ánni.
Meira síðar.