Veiðisumarið gengur sinn vanagang. Fréttir af stórlöxum hafa tekið við af veiðifréttum úr vötnum landsins, þó ein og ein slík frétt komist í gegn. Við munum hinsvegar stikla hér á stóru, bæði í fréttum úr ám og vötnum.
Flókan var komin í 137 laxa í fyrradag og eru menn þar á bæ nokkuð ánægðir með þann árangur. Hollin sem hafa verið að veiðum hafa flest verið að ná um 20 fiskum á stangirnar þrjár.
Eins og við greindum frá um daginn þá opnaði Laxá á Refasveit af miklum krafti. Sá kraftur heldur áfram en sem dæmi um það þá eru veiðimenn eru nú búnir að vera að veiðum í 1 dag, komnir með 12 laxa. Laxarnir eru allir 10-16 pund, utan eins þeirra sem er 7 pund. Tveir laxana voru 16 punda. Tvö síðsumarsholl eru eftir í Laxá á Refasveit þetta sumarið, sjá undir Laus veiðileyfi.
Hofsá er flott þessa dagana. Hún byrjaði vel og hefur haldið áfram að gleðja veiðimenn. Áin er nú komin í um 100 laxa og er mjög stór hluti þeirra, stórir 2ja ára fiskar. Hér inni á veiða.is eru nokkrir lausir síðsumarsdagar í ánni.
Breiðdalsá og Jökla hafa skilað nokkrum stórum löxum á land að undanförnu. Þar á meðal þessari risa hrygnu sem er á myndinni að ofan. Hún var 98 cm og 9 kg. Hér inni á veiða.is er hægt að finna nokkra flotta síðsumarsdaga í Jöklu.
Úr Fljótaá er það að frétta að mikið af bleikju er að veiðast, boltableikju. Laxveiðin er hinsvegar ekki komin af stað af krafti.
Veiði í Eyjafjarðará er farin að rúlla af stað. Um mánaðarmótin opnuðu svæði 2,3 og 4 en áður hafði svæði 1 verið opnað. Fiskur var að veiðast á öllum svæðum um helgina og svo heyrðist af veiðimönnum sem voru á pollinum og urðu varir við mikið af bleikju. Nokkuð er um lausar stangir í Eyjafjarðará á næstunni og auðvelt að nálgast upplýsingar um þær í Ellingsen á Akureyri.
Veiði í Hlíðarvatni heldur áfram að vera róleg. Veiða.is heyrði af tveimur mönnum sem stoppuðu í vatninu eins kvöldsstund um helgina. Þeir náðu 2 bleikjum á spinnera en fluguna vildu þær ekki. Þeir kíktu í magan á bleikjunni og var hún stútfull af æti.
Hörðudalsá í dölum er að skríða af stað. Hún hefur lítið verið stunduð það sem af er, en nú er fiskur genginn í hana og er hann vel dreifður. Um helgina veiddust nokkrir laxar og bleikjur í ánni.
Veiði á Hrauni í Ölfusi hefur oft verið meiri en í sumar. Inná milli veiðast fínir fiskar en engin stór skot hafa komið í sumar.
Seltjörn á Reykjanesi er að draga til sína margan veiðimanninn þessa dagana, bæði unga og gamla. Leyfin kosta ekki mikið og aðgengi er gott. Flestir sem kíkja í vatnið fara heim með fisk.