Við erum farin að þekkja þetta, þessa þurru tíð þegar vart kemur deigur dropi úr lofti svo vikum skiptir. Landinn flatmagar og lofar sólina en veiðimenn blóta og kalla eftir smá vætu, svona til þess að auka lýkur á því að veiðitúrinn skili eins og einni eða tveimur veiðisögum. En það er víst mjög lítil væta í kortunum, þó svo að uppúr miðri næstu viku gætu kannski nokkrir dropar fallið. Á meðan hitnar vatnið í ánum, fiskurinn hreyfir sig lítil og veiðimenn stynja á bakkanum. En eru samt ekki einhverjar fréttir af veiði? Við skulum sjá.
Laxinn er mættur í Leirá í Leirársveit. Tveir veiddust í gær og aðrir tveir daginn þar á undan. Veiðimaður sem var að veiðum í gær sagðist hafa séð töluvert af fiski í ánni. Hér inni á veiða.is er hægt að ná sér í síðasta lausa daginn í Leiránni í Júlí, næsta sunnudag. Sjá undir laus veiðileyfi.
Fyrr í vikunni minnstumst við á Hörðudalsá í Dölum. Hún hafði ekkert verið stunduð fyrr en um helgina, en þá fóru menn í smá könnunarleiðangur og komust að því að fiskur var kominn útum alla á, bæði lax og bleikja. Nú hafa 7 laxar komið á land og nokkrar bleikjur. Nóg er laust á næstunni og við hvetjum menn til að nýta sér flott júlí tilboð á stöngum í ánni. Sjá undir Hörðudalsá hér til hliðar.
Flekkudalsá hefur oft lent örlítið undir þegar kemur að fréttaflutningi af veiði. Tiltölulega lokaðar hópur veiddi í ánni áður en núverandi leigutaki tók við henni og nú má jafnvel reikna með að enn minni fréttir muni berast. Í dag er það hinn Svissneski Doppler sem er með Flekkudalsá á leigu. Okkur tókst þó að fá þær upplýsingar að eftir fyrstu 3 dagana, þar sem leigutaki árinnar veiddi við annan mann, þá komu um 20 fiskar uppúr ánni.
Fréttir frá veiðimönnum sem komu nýlega úr Kjósinni, Grímsá og Laxá í Leirársveit voru keimlíkar. Ágætt magn af fiski er genginn í árnar en veðrið hamlar því fiskurinn taki „eðlilega“. Menn þurfa að hafa mikið fyrir hverjum fiski, nota örsmáar flugur og læðast að bökkum árinnar. Svo nefndu menn líka að þeim þætti smálaxinn almennt frekar smár þetta sumarið. Ekki er óalgengt að laxar á bilinu 2,5-3 pund séu að veiðast.
Við höfum reglulega birt fréttir úr Brúará við Spóastaði frá því að hún opnaði 1. apríl. Síðustu 2 til 3 vikur hafa verið fínar í ánni, bleikjan virðist vera á öllu veiðisvæðinu og veiðimenn sem veiða.is höfðu náð nokkrum fínum bleikjum, allt neðan frá bökkum og upp á fossbrún. Nú er sá tími kominn að lax getur farið að veiðast í ánni. Ef við fáum fréttir af slíku þá skellum við henni hingað inn á vefinn.
Í gær birti Landssamband veiðifélaga tölur úr laxveiðinni. Enn trónir Norðurá á toppnum, nú með 527 laxa. Af þeim ám sem við höfum fylgast grannt með hér á vefnum þá er Flókan komin í 144 laxa, Hofsá í 134, Laxá í Leirársveit í 77 laxa, Búðardalsá í 41 og Fljótaá í 10.