Þó svo að víða sé rólegt í veiðinni og sumir komi hálf vonsviknir úr veiðitúrnum, þá verða daglega til margar skemmtilegar veiðisögur og minningar sem veiðimenn munu orna sér við á næstu mánuðum.

 

Hér að ofan má sjá einn af þeim flottari úr Laxá á Refasveit í sumar. 14,3 punda hrygnu sem Ragna Fróðadóttir veiddi í Göngumannahyl fyrir nokkrum dögum. Laxáin byrjaði ansi vel í sumar og hlutfall 2ja ára fiska var hátt. Nú um helgina var áin komin í um 65 laxa á stangirnar tvær. Veiði hófst í ánni 1. júlí.

Jökla hefur gefið nokkra stórfiska í sumar. Meðal annars þennan 90 cm bolta fisk sem skv. skalanum ætti að vera í kringum 16 pundin. En ef litið er á sverleika fisksins þá er ljóst að hann er nú eitthvað þyngri. Veiðimaðurinn heitir Hörður Heiðar Guðbjörnsson en það var Þórir Matthíassonsem tók myndirnar. Laxinn tók túpuna Randalín í fyrsta kasti í Brúarhyl í Kaldá, síðasta fimmtudag. Laxinn var gríðarlega kraftmikill og baráttan skemmtileg.
Átökin við að landa þessum bolta voru svo mikil að stöngin endaði í þremur hlutum á bakkanum um leið og höndum var komið á fiskinn. Að sjálfsögðu fékk þessi höfðingi að fara aftur í ána, eftir smá myndatöku.

 

 

Að lokum er hér er bolta bleikja úr Fnjóská sem Hilmir Kristjánsson veiddi á svæði 5 í Fnjóská um helgina. Að auki missti hann vænan lax milli veiðistaða 71 og 72. Hilmir og faðir hans Kristján Ísak náðu samtals 4 urriðum og 2 bleikjum í túrnum.