Jæja, þá rignir loksins á suður- og vesturlandi og reyndar hefur verið væta um mest allt land í dag. Næstu dagar munu einnig vera vætusamir og því má telja líklegt að sumar ár muni nú taka við sér í kjölfarið. Ofan í vætuna fá veiðimenn stóran straum, þannig að líklega er erfitt að fá betri aðstæður, miðað við það sem á undan hefur gengið.
Síðustu daga höfum við heyrt og séð fréttir frá mörgum af vinsælli bleikjuám landsins. Þær fréttir eru s.s. ekki allar í sömu átt en samt virðist bleikjan vera mætt í margar ár. Við heyrðum að fyrir um 10 dögum byrjaði bleikjan að ganga að krafti í Flókadalsá í Fljótum og nú er hún dreifð um alla á. Stangveiðifélag Siglufjarðar er með ána á leigu og er hún þéttsetin og ekki laus leyfi fyrr en líða tekur á ágúst. Fljótaá er einnig full af bleikju en þó svo að hún sé nú í grunninn laxveiðiá, þá er það bleikjan sem tekur meira af tíma veiðimanna. Ekki er óalgengt að yfir sumarið séu að veiðast á bilinu 1.200-2.000 bleikjur í Fljótaá og eru margar hverjar annsi vænar. Hörðudalsá í Dölum er einnig að gefa bleikjur þessa dagana en áin hefur verið í lægð síðustu ár. Laxaseiðum hefur verið sleppt í ánna og byrjunin nú í júlí lofar góðu fyrir heimtur þetta sumarið.
Úr laxveiðinni berast ein og ein frétt, þó hljóðið í veiðimönnum hafi verið fremur þungt að undanförnu. Báðar Rangárnar eru komnar yfir 500 laxa og hefur verið fínn gangur í þeim að undanförnu. Eitt svæði sem nýtur góðs af góðum göngum í Rangárnar er Hólsá/Þverá. Við heyrðum frá leigutökum þar á bæ sem sögðu okkur að á annað hundrað laxar væru komnir á land og fjölmargir sjóbirtingar og margir vænir. Á hverju flóði má sjá stórar laxagöngur æða upp grynningarnar neðst í Hólsá og fyrir þá sem hafa séð þá sjón eigin augum, vekur slík frásögn upp ljúfar minningar.
Leirá hefur verið að gefa síðustu daga en hún er 1 stanga á í Leirársveitinni. 20. júlí er laus fyrir þá sem vilja renna þangað. sjá inná laus veiðileyfi.
Nú þegar vætan tekur völdin má vænta fleiri frétta úr laxveiðinni.