Það hefur heldur hljóðnað yfir vötnum að undanförnu enda fáar stórfréttir af veiðislóðum utan þess að mjög vel veiðist í Rangánum, ekki síst þeirri Eystri. Á morgun sjáum við nýjar tölur frá Landssambandi veiðifélaga og er kannski mest spennandi að sjá hvort einhver þeirra áa sem hafa verið hvað daufastar í sumar, hafi tekið við sér síðustu daga. En hér að neðan eru nokkrar örfréttir, héðan og þaðan.
Laxveiðin í Fljótaá hefur verið í lágum gír það sem er af er sumri en það sama er ekki hægt að segja um bleikjuveiðina. Vel yfir 1.000 bleikjur hafa veiðst í sumar á stangirnar 4 og hafa margar þeirra verið rígvænar. Líklegt má telja að góð bleikjuveiði hafi verið mörgum góð sárabót sem sótt hafa í laxinn í ánni. Fljótaá hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir fína bleikjuveiði og sem dæmi þá veiddust að meðatali um 2.000 bleikjur í ánni á árunum 1974 til 2008.
Hörðudalsá höfum við að undanförnu verið að minnast á en upplýsingar um hana er að finna hér á veiða.is. Áin hefur verið í lægð undanfarin ár og samhliða því verið lítið stunduð. Hér á árum áður var ekki óalgengt að um og yfir 1.000 bleikjur kæmu á land á stangirnar 3 auk þess sem eitthvað af laxi slæddist með í aflanum. Síðustu ár hefur nokkuð af laxaseiðum verið sleppt og því hefur löxum fjölgað í aflanum. Nú eru ca. 35 laxar komnir á land og um 40 bleikjur.
Gufuá hefur verið róleg eins og margar aðrar ár á vesturlandi. Þó eru að reitast upp laxar og ekki síst á neðstu svæðunum en þar gætir sjávarfalla þegar fellur inní ós hvítár. Veiðimenn sem voru í ánni fyrir helgi sögðu að tölvert væri af laxi neðst í ánni en hann hefur ekki náð að dreifa sér mikið.
Veiða.is var í Elliðaánum í morgun. Dagveiðin þar hefur minnkað mikið á síðustu 2-3 vikum eftir mjög góða byrjun. Lítið af fiski er að skila sér inná flóðinu og nú eru menn að verða hálf vondaufir að það muni breytast það sem eftir lifir sumri. Í gær komu 5 laxar á land og á morgunvaktinni í morgun komu 3 laxar, þar á meðal þessi hér að ofan, um 2 kg. hryggna sem tók í Stórafoss.
Leiráin er ein þessara áa sem er mjög viðkvæm við þær veðuraðstæður sem eru í dag, bjart og stillt veður. Þrátt fyrir þessar aðstæður eru að tínast upp laxar í ánni.
Stutt er síðan fréttir bárust af því að Eystri og Ytri Rangá væru búnar að komast í 1.000 laxa. Nú berast þær fréttir að síðasta vika hafi gefið yfir 500 laxa í eystri og því þarf væntanlega ekki lengi að bíða þar til hringt verður bjöllu og talan 2.000 skrifuð á töfluna.
Fín veiði hefur verið í Langholti í Hvítá í sumar. Hreggviður í Langholti hafði nú ekki uppfærða tölu úr bókinni en heildarveiði er komin vel yfir 100 laxa. Besti dagur sumarsins var í fyrradag en þá komu 13 laxar á land. Hreggviður hvaðst þó sérstaklega ánægður með gang mála í netaveiðinni í ölfusá en þar hvu menn eiga erfitt með að leggja netin sökum mikils gróðurs sem slæðast í þau. Það tekur víst ekki nema 2-3 klst fyrir þau að fyllast af slýi þessa dagana og sökkva til botns. Óneitanlega kemur þetta sér vel fyrir stangveiðimenn ofar í ánni.