Nú fer að halla af sumri, birtu fer að bregða og veiðitíminn breytist. Á þessum tímamótum skulum við vona að þáttaskil verði í veiðinni þetta sumarið, að laxinn fari að ganga í árnar, þó ekki væri nema til að tryggja vöxt og viðgang stofnsins. Ekki hefur nú mikið fréttnæmt gerst að undanförnu en við tínum þó til nokkra punkta.

 

 

 

Vatnsá skreið svo sem ágætlega af stað en nú virðist sem laxinn hafi stoppað niðri í Kerlingadalsá og bíði eftir betra vatni enda segja kunnugir að Vatnsáin hafi ekki verið jafn lítil í tugi ára.

Fínn gangur hefur verið í Langholtinu í Hvítá í sumar, að minnsta kosti kvarta menn ekki á þeim bænum. Vel á 200 fiskar hafa komið á land og nokkrir ansi vænir. Lítið er um laus veiðileyfi og ekkert laust fyrr en um eða eftir 20 ágúst.

Þokkalegur gangur hefur verið í Hvolsá og Staðarhólsá að undanförnu. Nóg vatn hefur verið í Hvolsá og alveg bærilegt í Staðarhólsá. Laxinn og bleikjan eru mjog sýnileg í ánni en birtuskilyrði og veðurblíða gera árnar viðkvæmar og tökurnar erfiðar.

Hörðudalsáin heldur áfram að gefa þokkalega þó svo að þurrkar og blíðviðri setji mark sitt á ánna. Töluvert er laust í ágúst og hvetjum við veiðimenn til að prufa ánna, ekki síst nú þegar spáð er töluverðri rigningu þegar líður á vikuna.

Kroppið heldur áfram í Gufuá í Borgarfirði. Nokkuð mikið af fiski er á neðstu svæðum árinnar en áin er fremur vatnslítil þessa dagana. Áin gæti komið inn sem sterkur kostur í síðsumarsveiðina, nú strax um næstu helgi, í ljósi þeirra rigninga sem eru á leiðinni skv. spá vedur.is. Kíkið á lausa daga inná veiða.is

Veiðin í Hólsá/Þverá hefur verið fín það sem af er enda nýtur svæðið að sjálfsögðu góðs af kröftugum göngum í Eystri-Rangá. Þó við séum ekki með heildartöluna í dag, þá vitum við að meira hefur veiðst í ár heldur en á sama tíma í fyrra.

Heldur hefur veiðin róast í Búðardalsá enda hefur vatnið í ánni minnkað mikið. Veiði í ánni er þó heldur meiri en á sama tíma í fyrra og góður tími framundan, ekki síst af veðurspá næstu daga rætist.

Okkur hefur s.s. ekki borist til eyrna neinar nýjar fréttir úr Brúará en á myndinni hér að ofan má sjá Þorstein Stefánsson með tvær flottar bleikjur úr ánni, veiddar fyrir landi Haga.