Minnivallalækur
Staðsetning: Minnivallalækur er í Landsveit skammt frá Hellu. Fjarlægð frá Reykjavík er ca. 110 km.
Veiðisvæði: Minnivallalækur frá upptökum til ósa við Þjórsá. Veiðisvæðið er samtals um 7 km langt.
Tímabil: 1. apríl – 30.september
Veiðileyfi: Seldir eru tveir eða þrír dagar í senn frá hádegi til hádegis
Daglegur veiðitími: Veiðimenn mega haga veiðitíma að eigin ósk en þó innan 12 stunda ramma á hverjum sólarhring.
Fjöldi stanga: Leyfðar eru 4 stangir sem seldar eru saman.
Verð: Stöng á dag kostar á bilinu kr.24.800 – 32.800 og innifalið í því er húsgjald með uppábúnum rúmum.
Veiðireglur: Aðeins er leyfð fluguveiði í Minnivallalæk og skylt er að sleppa öllum fiski.
Vinsælar flugur: Black Ghost, Nobbler (yfirleitt svartur eða hvítur), Dýrbítur, Pheasant tail, Peacock, Hares ear og smáar púpur sem líkja eftir vorflugum eða mýflugum. Black Gnat, Griffiths gnat, Parachute Adams, Evrópa, Klinkhammers. Venjulega eftirlíkingar mýflugna eða vorflugna.
Veiði síðastliðið ár: 2013 – 300 urriðar. 2012 – 293 urriðar. 2011 – 250 urriðar
Minnivallalækur á engan sinn líka í heiminum. Kristaltært og frjósamt lindarvatnið veitir umgjörð utan um einhver allra bestu búsvæði urriða sem fyrirfinnast á Íslandi og sennilega víðar um heim. Staðsetning lækjarins á yngsta landsvæði landsins gerir það að verkum að þegar vatnið kemur upp á yfirborðið undan hrauninu er hitastig þess mjög jafnt, leiðnin há og frjósemi mikil. Við þessi skilyrði er skordýralíf í blóma og sökum þess hversu hægrennandi lækurinn er hentar hann urriða feykivel.
„Oft heyrum við efasemdaraddir frá erlendum veiðimönnum sem ekki trúa því að svona stórir urriðar geti leynst í svona litlum læk en menn þurfa ekki annað en velta við steini eða róta upp botninum til að skilja það hvernig urriðinn í Minnivallalæk getur náð slíkum stærðum sem raun ber vitni. Þessi einstöku skilyrði gera það líka að verkum að fiskurinn er ljónstyggur og í ákveðnum veðurskilyrðum alveg ótrúlega erfiður við að eiga. En það er einmitt ástæðan fyrir því að bestu fluguveiðimenn heims leggja leið sína í Minnivallalæk ár hvert til að reyna við þennan fallega fisk sem lætur ekki ná sér svo auðveldlega. Þegar þeir svo setja í stærstu urriða sem þeir hafa nokkurn tímann séð er ferðin og erfiðið svo sannarlega búið að borga sig.“
Það er óvíða í heiminum sem veiðimenn eiga möguleika á að setja í tíu punda urriða í pínulitlar þurrflugur í stærðum 18 og jafnvel minni. Á hverju ári veiðast urriðar sem eru um og yfir 10 pund og fjöldi fiska á bilinu 4-8 pund. Stærsti urriðinn sumarið 2011 var 1 meter og viktaður 14 pund úr Stöðvarhyl! Vorið getur oft á tíðum verið stórkostlegt og fyrstu dagana eftir opnun 1. apríl er oft hægt að fá ævintýralega veiði á straumflugur og stærri púpur. Þegar líða tekur á vorið og snemmsumars kviknar á lífríki lækjarins fyrir alvöru og hlutverk veiðimanna fer að verða erfiðara, flugurnar minnka og þurrfluguveiðin byrjar. Um mitt sumar veiða menn á pínulitlar flugur og örgrönnum taumum, skríða um bakkana og kasta á fiska sem menn sjá vel í kristaltæru vatninu. Þegar hausta tekur stækka flugur á ný og fiskur fer aftur að verða árásargjarn. Oft lenda menn í ævintýrum í haustveiðinni í læknum. Minnivallalækur er sannarlega paradís urriðaveiðimannsins.