Þegar stangveiðisumarið 2012 í Veiðivötnum er rifjað upp, læðist sú tilfinning að manni að það hafi nú ekki verið neitt sérstakt, ekki síst þegar veiðitölur sumarsins eru bornar saman við tölur síðustu 3ja ára. En var sumarið svo slæmt?
Í sumar veiddust 19.647 fiskar á stöng í Veiðivötnum. Þar af voru 13.106 urriðar og 6.541 bleikjur. Meðalþyngd stangveiddra fiska var 1,96 pund, hefur ekki verið meiri svo vitað sé. Meðalveiði á stöng í Veiðivötnum, árin 1999-2012 var 20.462 fiskar. Eins og sést á myndinni hér að neðan hefur veiði í Veiðivötnum síðustu 4 sumur verið meiri en í ár. Flestir fiskar komu á land sumarið 2009 eða 29.524 og sumarið 2010 komu 28.837 á land. En þegar tímabilið frá 1999 er skoðað sést að sumarið í ár var 6. besta sumarið ef heildarveiði er skoðuð og það 5. besta ef litið er til fjölda urriða sem komu á land.
Ef skoðuð er þróun veiði frá árinu 1999 kemur í ljós heildarveiði hefur aukist gríðarlega mikið á þessum tíma. Mest munar um stangveiddar bleikjur. Einungis 98 bleikjur voru skráðar sumarið 1999 en 6.541 nú í sumar. Vel getur verið að skráningu bleikjuveiði hafi verið ábótavant á þessum tíma eða þá að henni hafi lítið verið sinnt, enda er urriðinn það sem menn sækja fyrst og fremst í, í vötnunum.
Til þess að geta glöggvað sig betur á því hvað þessar tölur í raun þýða, þyrfti að fá upplýsingar um nýtta stangardaga í gegnum tíðina í vötnunum. Veiðivötn eru vinsæll áfangastaður veiðimanna og hafa þær vinsældir náð hápunkti síðustu 3-4 ár.