Brúará er eitt þeirra vatnasvæða sem opna 1. apríl. Fyrstu dagarnir eftir opnun hafa ætíð verið uppbókaðir og árið í ár er engin undantekning á því. Hvernig sem hefur viðrað hefur ætíð verið hægt að sjá veiðimenn á bökkum Brúarár í landi Spóastaða á þessum árstíma.
Einn þeirra veiðimanna sem sótt hefur í að opna Brúará er Vignir Arnarson, sá hinn sama og sendi okkur veiðisöguna skemmtilegu úr Brúará um daginn. Myndirnar hérna er teknar 1.apríl fyrir tveimur eða þremur árum.
Vignir hefur náð ágætum tökum á að veiða í Brúará en aðspurður segir hann að ekki sé um nein töfrabrögð sé að ræða. Það sem hefur reynst honum best er að veiða með dropper, nota tökuvara, kasta ca °45 upp fyrir sig og bregða skjótt við minnstu hreyfingu tökuvarans. Hann segir að mikilvægt sé að ná flugunni niður og láta hana nánast „skralla“ með botninum. Vignir veiðir mikið í Brúará, yfirleitt í hverjum mánuði yfir veiðitímabilið. Hann segir að vorin séu góður tími í Brúará; þegar bleikjan leitar uppá grynningarnar þá daga sem sólin nær að hita ána um °2-3, þá er von á góðu. Við munum hafa auga á Vigni þegar hann, ásamt fleirum, opnar Brúará þann 1. apríl.
Það eru ýmsir sem hafa „hræðst“ Brúarána vegna þess að sagan segir hana frekar erfiða. Hér að framan sagði Vignir okkur frá því hvaða aðferð gagnast honum best. Þá er bara næsta skref að fá upplýsingar um það hvar bleikjuna er helst að finna. Við munum fjalla um það fljótlega. Fyrir þá sem ekki vilja bíða eftir þeirri umfjöllun, er um að gera að leita til reynslubolta eins og Vignis sem allaf er tilbúinn að miðla af reynslu sinni.
Hér er hægt að finna leyfi í Brúará og hér eru margar af helstu flugunum sem veiðimenn nota í Brúará.