Veiðisvæði Blöndu við Blönduós og Svartá í Svartárdal eru nú komin í sölu hér á veiða.is. Nýr leigutaki tók við svæðunum í haust, Starir, sem einnig er með ár eins og Þverá og Kjarrá á sínum snærum. Þegar nýr leigutaki tók við í haust kynnti hann að ýmsar breytingar yrðu gerðar á veiðifyrirkomulagi, fyrir komandi veiðitímabil sem snúa að leyfilegu agni, kvóta og fjölda stanga. Breytingarnar eiga að stuðla að uppbyggingu svæðana til framtíðar – við förum nánar í breytingarnar hér að neðan.

Agn og kvóti

Á komandi veiðitímabili verður einungis leyfilegt að veiða með flugu á veiðisvæði Blöndu og Svartár. Síðustu ár hefur blandað agn verið leyfilegt á hluta svæðis I og að öllu leyti uppá svæði II og III. Sumarið 2020 má eingöngu veiða á flugu á öllu veiðisvæði Blöndu og Svartár. Önnur breyting sem gerð hefur verið er að einungis má „hirða“ einn hæng sem er undir 68 cm á hverri vakt, hver stöng. Síðustu ár hefur verið mjög rúmur kvóti í Blöndu sem hefur leitt til að mjög stór hluti aflans á svæði I hefur verið drepinn sem þá að sjálfsögðu hefur dregið úr göngum uppá efra svæði Blöndu og uppí Svartá. Við þessa breytingu þá á mun meira að fiski að ganga upp eftir, en ella hefði orðið, veiðimönnum til ánægju og gleði en einnig til að stuðla að sterkari náttúrulegri uppbyggingu árinnar.

Veiðisvæðin

Svartá SvartárdalNú í sumar, þá verður gerð ein megin breyting á nýtingu neðstu 3ja veiðisvæðanna. Fljótlega eftir að svæði II og III opna, eða þann 24. júní, þá eru þau veidd í róteringu með veiðisvæði I – þó þannig að stöngum er fækkað á svæði II og III. Fæðis og gistiskylda er í júní og fram til 2. ágúst.

  • Í júní er samtals veitt með 4 stöngum á svæði I, 1 stöng á svæði II og 1 stöng á Svæði III. Samtals 6 stangir. Þessi 3 svæði eru veidd saman.
  • Í júlí er samtals veitt með 4 stöngum á svæði I, 2 stöngum á svæði II og 2 stöngum á Svæði III. Samtals 8 stangir. Þessi 3 svæði eru veidd saman.

Í júní og júlí er því um fækkun heildar fjölda stanga að ræða í Blöndu. Á veiðisvæði IV verður eftir sem áður veitt á 3 stangir en heildarfjöldi stanga í júní og júlí verður að hámarki 11 sem veitt er á, á degi hverjum í staðinn fyrir 14 stangir.

Frá og með 2. ágúst þá verður hinsvegar selt sér á hvert og eitt svæði í Blöndu

Samantekt

  • Blanda I – Seld sér frá opnun 5. júní og fram til 24. júní. Frá 24. júní og til 2. ágúst er svæðið veitt með svæðum II og III. Frá 2. ágúst er svæði I í Blöndu aftur selt sér, 4 stangir.
  • Blanda II – Frá 24. júní og fram til 2. ágúst er svæðið veitt með svæðum I og III. Frá 2 ágúst er svæði II í Blöndu selt sér, 4 stangir.
  • Blanda III – Frá 24. júní og fram til 2. ágúst er svæðið veitt með svæðum I og II. Frá 2 ágúst er svæði III í Blöndu selt sér, 3 stangir.
  • Blanda IV – Frá opnun, 20. júní og út tímabilið, eru 3 stangir seldar í einum pakka. Gott sjálfsmennskuhús, nálægt veiðisvæðinu, er í boði fyrir veiðimenn.

 

Svartá í Svartárdal

Svartá SvartárdalSú megin breyting verður gerð við fyrirkomulag veiðileyfa í Svartá fyrir komandi veiðitímabil að þegar holl eru bókuð þá er einungis greitt fyrir 3 stangir, en veiða má á 4 stangir.  Eins og í Blöndu, þá er kvóti á hverri vakt, einn hængur undir 68 cm á hverja stöng og eins og áður er einungis veitt á Flugu. Veiðihúsið við Svartá verður tekið í gegn fyrir komandi veiðitímabil og þarf hvert holl að greiða húsgjald og innifalið í því er uppábúið og þrif – veiðimenn sjá um sig sjálfir í veiðihúsinu, eins og verið hefur. Sjá laus holl hérna.

 

Sumarið 2020

Veiðimenn og leigutakar eru bjartsýnir á gott veiðisumar í Blöndu og Svartá, í sumar. Sumarið 2015 veiddust rúmlega 4.800 laxar á blöndusvæðinu. Smálaxinn sem mætir uppí Blöndu í  vor og sumar kemur undan hrygningunni haustið 2015 og aðstæður voru með besta móti síðasta vor þegar seiðin gengu til sjávar.

Fyrir frekari upplýsingar um Veiðisvæðin og Blöndu, er hægt að kíkja inná upplýsingasíðu hvers veiðisvæðis.