Fáskrúð í Dölum er fjölbreytt, skemmtileg og krefjandi laxveiðiá sem er ofarlega í huga margra félagsmanna Stangaveiðifélags Akraness, enda félagið haft ítök í ánni mestmegnis frá árinu 1942. SVFA hefur um helming veiðidaga til umráða á móti SVFR.
Fáskrúð skilur að Laxárdalshrepp og Hvammssveit en áin á upptök sín á Gaflfellsheiði tugi kílómetra frá sjó og fellur svo til sjávar í Hvammsfjörð um 8 km fyrir norðan Búðardal. Áin liðast ein um 20 km leið til sjávar en laxgenga svæði hennar er um 12-14 km langt og hefur 36 merkta veiðistaði. Áin getur talist frekar aðgengileg sem laxveiðiá þrátt fyrir stórgrýtt og magnað landslag á köflum.
{gallery}faskrud{/gallery}
Veiðisvæðið: 36 merktir veiðistaðir eru í Fáskrúð frá Katlafossum niður að sjávarósi. Í góðu vatni kemst stöku lax upp fyrir efsta veiðistaðinn Katlafoss og eru þess dæmi að fengist hafi þar laxar. Einungis er þar um 400 m. kafla að ræða og hreint ómögulegt fyrir laxinn að ganga enn lengra þar sem svokallaður Efri-Foss hindrar laxgengd með öllu.
Tímabil: Veitt er í Fáskrúð frá 30. júní til 30. september ár hvert og hefur SVFA til umráða um helming veiðidaga í ánni á móti SVFR eða aðra hverja sex daga og víxlast vikurnar ár frá ári. Hvert útselt holl eru tveir dagar frá hádegi til hádegis.
Fjöldi stanga: Mest er veitt á þrjár stangir í Fáskrúð en áin hentar engu að síður mjög vel sem tveggja stanga svæði. Í september er veitt á 2 stangir.
Leyfilegt agn: Fluga og maðkur. Afar fjölbreyttir veiðistaðir eru í ánni og skiptast á fallegir fluguveiðistaðir og skemmtilegir maðkastaðir.
Veiði síðastliðin ár: 2008, 432 laxar. 2010, 520 laxar. 2011, 248 laxar. 2012, 157 laxar. 2013, 250 laxar. 2015, 172
Reglur: Kvótamál eru til nýbreytni í Fáskrúð en kvóti er nú 12 laxar á holl. Umfram kvóta má veiða og sleppa. Veiðimenn eru hvattir til þess að sleppa öllum laxi sem kostur er og þá sérstaklega hrygnum. Gott er að hafa þetta í huga sér í lagi þegar komið er fram í september.
Veiðihús: Tvö veiðihús standa veiðimönnum SVFA til boða í Fáskrúð. Flestir nýta sér íbúðahúsið að Ljáskógum sem er búið öllum helstu þægindum. Einnig er gamla veiðihús SVFA við Hellufljót í boði en það er utan alfaraleiðar án hita og rafmagns og hefur heldur einfaldari aðbúnaður en töluverðan sjarma sem erfitt er að líkja saman við önnur ársvæði þegar farið er í veiði. Sérstaklega ber þar að nefna nálægðina við ána en staðsetningin ein og sér fær fólk til þess að gleyma hversdagsleikanum við dvöl sína í Fáskrúð. Aðbúnaðurinn er í senn góður og gamaldags og hefur lifað tímana tvenna og það er jafnan sá tími, gamli tíminn, sem menn upplifa þegar rennt er í hlað við gamla veiðihúsið í Fáskrúð.
Gamla veiðihúsið er afar vel staðsett í göngufæri frá einum fengsælasta veiðistaðnum í Fáskrúð, Hellufljótinu. Fjögur lítil svefnherbergi með svefnplássi fyrir 7-9 manns eru í húsinu ásamt salernisaðstöðu. Ágætis borðkrókur ásamt setustofu er sameiginlegur eldunaraðstöðu. Á verönd er góður sólpallur. Húsið er búið sólarrafhlöðu til lýsingar og er gas notað til kyndingar. Gas-ísskápur, gasgrill og gaseldavél eru til staðar. Hljómflutningstæki knúið af sólarrafhlöðu er í húsinu.
Nánari upplýsingar: Til að fá nánari upplýsingar um lausa daga, aðbúnað og annað, má hafa samband við veiða.is