Þau eru hálf tómleg þau jól sem innihalda ekki eins og eina veiðijólabók. Í ár koma nokkrar veiðibækur út, þar á meðal bók eftir Stefán Jón Hafstein sem heitir „Fluguveiðiráð“. Bókin er skreytt fjölda skýringarmynda sem Lárus Karl Ingason tók af þessu tilefni. Sérstakir kaflar eru um laxveiði, sjóbleikju- og urriðaveiði. Þá fær vatnaveiðin einnig sitt. Að auki eru kaflar helgaðir þurrflugu-, straumflugu- og púpuveiðum. Bókin er 140 bls. og er sett um þannig að auðvelt er að nálgast áhugasvið hvers og eins.
Þegar ritstjóri veiða.is verður búinn að glugga betur í bókina, munum við efalaust fjalla betur um hana. Sjá fréttatilkynningu hér að neðan:
Reykjavik, 2. des 2013
Fréttatilkynning
Komin er út bók fyrir fluguveiðimenn, Fluguveiðiráð eftir Stefán Jón Hafstein. Bókin er skreytt fjölda skýringarmynda sem Lárus Karl Ingason tók af þessu tilefni. Bókin er verkleg heilræðabók og ætluð til að hjálpa almennum veiðimönnum til að veiða markvisst og skipulega, sækja fiskinn með vænlegum aðferðum. Í inngangi segir Stefán Jón að hann hafi verið svo lánsamur að fá að veiða með mörgum ákaflega snjöllum veiðimönnum sem hafi kennt honum mikið, en líka fengið að segja til ýmsum sem styttra eru á veg komnir og hann þekki því margar spurningar sem leiti á fólk. Bókinni sé ætlað að miðla á milli.
Sérstakir kaflar eru um laxveiði, sjóbleikju- og urriðaveiði, þá fær vatnaveiðin sitt. Einnig eru kaflar helgaðir þurrflugu-, straumflugu- og púpuveiðum. Bókin er 140 bls. og sett upp þannig að auðvelt er að nálgast áhugasvið hvers og eins og lesa sér til um það sem hugur stendur til hverju sinni. Stefán Jón segir að hjálpi bókin veiðimanni til að ná einum fiski sem ella hefði ekki fengist hafi hún borgað sig. Og hugmyndin með útliti og uppsetningu hafi verið sú að mann langaði hreinlega út að veiða.