Þetta Jöklusvæði gaf 234 laxa sumarið 2014 þrátt fyrir erfiðar aðstæður til að byrja með megnið af júlí vegna mikils snjóbráðar og vatns. Á móti kom að Jökla sjálf fór á yfirfall ekki fyrr en í byrjun september eins og spáð hafði verið miðað við vatnsstöðu Hálslóns yfir veturinn. En það er greinilegt að nýja rásin við Steinbogann virkaði vel því stór hluti veiðinnar á þessu svæði var núna ofan Steinboga og upp að Hvannárbreiðu. Fyrir sumarið 2015 verður þetta svæði lengt um nokkra km. upp að veiðistaðnum Svelg sem er glæsileg breiða með auðveldri aðkomu fyrir alla veiðimenn og töluvert af laxi virðist safnast þar fyrir. Fleirri glæsilegir hylir og flúðir eru að uppgötvast á hverju sumri og örugglega eiga fjölmargir fleirri eftir að bætast við á næstu árum. Um 5km. fyrir ofan Steinboga stoppar lax töluvert í Hólaflúð rétt neðan við svokölluð Valabjörg og er það nú einn besti veiðistaðurinn í allri Jöklu. En veiðin í hliðaránum eins og Kaldá, Laxá og einnig í nágranna ánni Fögruhlíðará voru vonbrigði annað árið í röð og greinilegt að heimtur gönguseiða voru almennt lágar þetta sumarið. Megnið af laxinu sem veiddist var úr sleppingu sumaralina seiða sl. 5 ár beint í Jöklu og ljóst að þau þrífast vel í henni og stutt yfirfall síðsumars og um haust tefur líklega einungis vöxt þeirra vegna lágs vatnshita þá. Reyndar er Jökla að öllu jöfnu fyrir yfirfall mjög heit er líður á sumarið og vistkerfi hennar er í uppsveiflu samkvæmt rannsóknum.
Um Svæðið
Jökla I og Fögruhlíðará er 6-8 stanga svæði frá og með 1. júlí til 30. september, aðallega sem laxveiðisvæði þó að silungur veiðist áfram út allt sumarið. Um er að ræða Fögruhlíðará ofan þjóðvegar ásamt Jöklu við Hvanná niður til ósa en til svæðisins teljast í leiðinni einnig Kaldá, Laxá og Fossá sem renna í Jöklu úr norðri . Þetta er gríðarlega mikið og fjölbreytt svæði þar sem veitt er í miklu vatni í Jöklu og allt niður í litlar og nettar ár eins og Laxá sem er mjög skemmtileg fyrir litlar einhendur ásamt Fögruhlíðará.
Samtals er svæðið um 40 km langt og því verður afar rúmt um veiðimenn og miklir möguleikar á því að kanna ótroðnar slóðir. Þó er góð aðkoma að mörgum veiðistöðum og ekki þörf á að ganga langar vegalengdir víðast hvar. Eingöngu er leyfð fluguveiði í júlí og ágúst enda hentar svæðið ákaflega vel til þess. Eftir það má veiða á maðk og spón. Skylt er að sleppa öllum löxum 70 cm og stærri og og hirða má tvo laxa á dag á stöng undir þeim mörkum og sleppa öðrum. Að auki er æskilegt að sleppa öllum löxum sem veiðast við Steinbogann og ofar í Jökuldal, enda eru vannýtt uppeldissvæði að finna þar uppfrá þar sem æskilegt er að leyfa honum að hrygna sem mest.
Það þykir mörgum langt að aka alla leið austur í Jöklu frá Reykjavík. En nú er hægt að taka veiðijeppa á leigu á Egilsstaðaflugvelli á hóflegu verði og stytta þar með ferðatímann gríðarlega og spara líka ferðakostnað! Veiðibílar ehf munu hafa nokkra bíla á Egilsstöðum sumarið 2013 og er tilvalið fyrir 3-4 veiðimenn að taka saman einn jeppa þar með eru veiðimenn á leið á Jöklusvæðin komnir í veiðihús eftir aðeins einn og hálfan tíma frá Reykjavík. Upplýsingar um bílaleiguna er í síma 866 3586 og á netfangi [email protected]
Horfurnar eru mjög góðar fyrir 2015 þar sem afkoma smáseiða sem sleppt hefur verið í Jöklu undanfarin ár er góð og fara þau að hafa árhrif nú á laxgegnd í miklum mæli samkvæmt rannsóknum. Einnig hafa gönguseiðasleppingar í hliðarárnar verið auknar umtalsvert sem gerir svæðið minna háð Jöklu eftir yfirfall því þær eru alltaf tærar og bjóða upp á nægja bakkalengt fyrir 6-8 stangir án vandkvæða.