Nú er ljóst að engu af þeim 6 tilboðum sem bárust í Mýrarkvíslina verður tekið. Þrír aðilar skiluðu inn tilboðum og má ljóst vera af þeim sem bárust að tilboðsgjafar voru ekki sáttir við þær breytingar sem ráðgert var að gera á veiðifyrirkomulagi við ánna. Einungis 2 af þeim tilboðum sem bárust voru í samræmi við útboðslýsinguna. Stjórn veiðifélagsins ákvað að taka engu þessara tilboða og friða ánna þess í stað næsta sumar.
Mýrarkvísl er ein af mörgum hliðarám Laxár í Aðaldal. Eins og Laxá í Aðaldal er Mýrarkvísl þekkt fyrir góða meðalþyngd og undurfagurt umhverfi. Mýrarkvísl rennur út í Laxá í Aðaldal um fjórum kílómetrum frá ós Laxár. Þrátt fyrir að vera hliðará Laxár þá er ekki hægt að segja að árnar séu líkar. Mýrarkvísl er frekar nett veiðiá sem þarf að fara nokkuð varlega að til þess að ná góðum árangri.
Í útboðslýsingu Mýrarkvíslar var gert ráð fyrir nokkrum breytingum á veiðifyrirkomulagi árinnar. T.d. var gert ráð fyrir að öllum laxi yrði sleppt aftur í ánna aftur, að eingöngu yrði veitt á flugu og svo var í lýsingunni gert ráð fyrir að hús stæði veiðimönnum til boða, ólíkt því sem áður hefur verið. Tilboðin sem bárust í ánna voru ekki á þeim nótum sem veiðifélagið vonaðist eftir og því hefur verið ákveðið að friða ánna næsta sumar, fyrir utan um 15 daga sem seldir verða fyrir rekstrarkostnaði.