Í gær voru opnuð þau tilboð sem bárust í veiðirétt í Norðurá á árabilinu 2014-2018. Mikið hafði verið skrafað um það hverjir myndu bjóða og hvaða upphæðir yrðu í tilboðunum. Svo virðist sem að nær allir þeir sem töldu sig vita eitthvað um þau tilboð sem bárust, hafi haft rangt fyrir sér.
Síðustu vikurnar höfum við veiðimenn fylgst með hverju „skúbbinu“ á fætur öðru þar sem áhugamenn um útboðið hafa nefnt tilvonandi tilboðgjafa og verð sem þeir myndu bjóða. Verðið sem nefnt var, var oftar en ekki mikið mun hærra en raunsæir menn höfðu reiknað með að sjá í útboðinu. Nú þegar niðurstaðan liggur fyrir, þá er eðlilegt að menn spyrji hvar uppruni þeirra upplýsinga var sem voru svo fjarri raunveruleikanum.
Tvö „gild“ tilboð bárust í veiðiréttinn og eitt frávikstilboð án þess að nein leiguupphæð væri nefnd. Gildu tilboðin tvö komu frá SVFR. Annað var í nafni ehf. í eigu SVFR en hitt frá félaginu sjálfu. Tilboðið frá SVFR hljóðaði uppá 76,5m fyrir árið 2014. Tilboðið frá einkahlutafélaginu hljóðaði uppá 83,5m. Gert er ráð fyrir 5 ára verðtryggðum samningi
Spennandi verður að sjá hver næsti leikur Veiðifélags Norðurár verður. Ljóst er að niðurstaða útboðsins er langt frá því að vera það sem vonir þess stóðu til að yrði.