Sogið virðist vera með líflegra móti þessa dagana. Veiðimenn hafa verið að setja í og landa löxum víða um ána. Alveg frá Alviðrunni og uppúr. Veiðimenn hafa séð göngur koma í gegnum Alviðruna og hefur verið eftir því beðið að eitthvað af þeim fiski færi að veiðast í magni á svæðunum ofar í ánni. Það gerðist seinni partinn í dag í Bíldsfellinu.

Veiðimenn sem hófu veiðar í Bíldsfellinu um kl. 16, fóru sér engu óðslega – tóku því rólega fyrst um sinn en þegar kom undir kvöld þá fór að hitna í kolunum. Laxar hafa sést á Breiðunni og við Garðana síðustu daga og í kvöld sáust einnig laxar bylta sér á Tóftinni. Fyrstu laxar dagsins komu á Breiðunni, 4 talsins á tæpum klukkutíma. Allt smálaxar í fínum holdum. Síðan komu 2 laxar á Tóftinni og á síðustu 90 mínútunum, komu aðrir 4 laxar á Breiðunni og við Garðana – stærst var 87 cm hrygna. Að auki komu bleikjur á land og flottir birtingar. Frábær eftirmiðdagur.

Það má efalaust fara all mörg ár aftur í tímann, til að finna svo góða vakt í Bíldsfellinu – og vonum við að þetta sá ávísun á betri tíð. Bíldsfellið er full selt í júlí en laus holl þegar komið er inní Ágúst. Á Alviðrunni má finna lausar stangir og vaktir nú í júlí.

Meðfylgjandi er mynd af Ingólfi Ásgeirssyni með 87 cm hrygnu.