Útboðsmálin hafa verið fyrirferðamikil í umræðunni nú síðustu mánuði. Enn eru að berast fréttir af nýjum útboðum og breytingum á leigutökum. Nú síðast var tilkynnt um að Hreggnasi myndi taka við Nesveiðum í Aðaldal. Síðustu daga hefur komið í ljós hverjir verða næstu leigutakar í ám eins og Laugardalsá, Mýrarkvísl og Laxá á Refasveit. Nokkur önnur útboð eru enn í gangi, eins og Dunká, Skjálfandafljót og Steinsmýararvötn. En hverjir eru það sem eru að taka við Laugardalsá, Mýrarkvísl og Laxá á Refasveit?
Laugardalsá hefur verið hjá Lax-á síðustu árin en hún var boðin út í september. Nýjir leigutakar eru Guðmundur Atli Ásgeirsson, Helgi Guðbrandsson og Jóhann Birgisson. Tóku þeir ána á leigu í 1 ár en áhugi er hjá báðum samningsaðilum á að skoða framlengingu á því samstarfi. Leiguverðið er 9,5 m.kr. sem er sambærilegt og það hefur verið undanfarin ár. Að sögn Guðmundar Atla munu verða umtalsverðar lækkanir á veiðileyfum, sérstaklega á dýrasta tímanum.
Mýrarkvísl fór útboð haustið 2012 en engu þeirra tilboða sem bárust þá, var tekið. Áin var friðuð að mestu í sumar en nú í október var hún síðan boðin út aftur. Hæsta tilboð barst frá Matthíasi Þór Hákonarsyni (matti hjá veiðivörur.is), Jónasi Jónassyni og tveimur öðrum félögum þeirra. Það tilboð hljóðaði uppá 3,8 m.kr. Stjórn veiðifélagsins hefur ákveðið að ganga til samninga við Matta og félaga. Gengið verður frá samningi á næstu dögum.
Laxá á Refasveit var boðin út nú í haust. Töluverður áhugi var á ánni en 8 tilboð bárust og voru 6 þeirra á bilinu 7-7,5 m.kr. Nýr leigutaki mun taka við ánni á næstu dögum. Hann heitir Atli Þór Gunnarsson og er einn landeigenda við ána. Gengið verður frá samningum og næstu dögum og eftir það mun koma í ljós hvort einhverjar breytingar verða á veiðitilhögun við ána.