Veiðin hófst í Hlíðarvatni við Selvog í gær, þann 1. maí. Við fengum smá skýrslu frá Kristjáni Friðrikssyni, formanni Ármanna, eins þeirra félaga sem er með veiðirétt í vatnið. Óhætt er að segja að í gær var veisla, bæði hjá bleikjunni í vatninu og veiðimönnum sem „opnuðu“ veiðitímabilið í vatninu.

Stjórn og Hlíðarvatnsnefnd Ármanna opnuðu Hlíðarvatnið í gær að venju og það er óhætt að segja að vatnið hafi leikið við okkur. Nær allir veiðistaðir í vatninu eru komnir í gang og greinilega nóg af æti því víðast hvar má sjá bleikjuna velta sér í æti í yfirborðinu. Toppflugur, vorflugur og aðrar tegundir klöktust út í blíðunni í Selvoginum í gær og veiðin fór mjög vel af stað hjá okkur. Eftir daginn voru komnir 60 fiskar í bók hjá Ármönnum (þar af einn sjóbirtingur) og ef þetta gefur einhverjar vísbendingar um sumarið framundan, þá verður hrein og klár veisla í Hlíðarvatni.
Það vakti athygli að hlutfall stórra fiska, 40 sm og upp úr var mjög hátt í þeim afla sem skráður var hjá Ármönnum. Fiskurinn var sérstaklega vel haldinn og hefur greinilega notið hlýinda í apríl til að bæta á sig. Að vanda var þétt skipaður bekkurinn við Brúarbreiðuna en bestu staðirnir hjá Ármönnum voru Mostangi, Stakkavík, Gamlavör og Guðrúnarvík.

Við heyrðum einnig frá veiðimönnum sem voru að hefja veiðar í gærkveldi á vegum Stangaveiðifélagsins Árbliks. Þeir náði 4 flottum bleikjum á kvöldvaktinni og misstu einnig mun fleiri. Átta fiskar voru skráðir í bókina þegar þær mættu til veiða.

Önnur 3 félög fara með veiðrétti í vatninu og ef svipaður gangur hefur verið hjá veiðimönnum á þeirra vegum, þá má reikna með að heildarfjöldi skráðra fiska í gær, á fyrsta veiðidegi vatnsins, hafi verið vel yfir 120, sem er frábært. Samtals er Veitt á max 14 dagstangir í Hlíðarvatni.

Hérna má finna veiðileyfi í Hlíðarvatn. Vatnið er mjög vel selt, en eitthvað er laust þegar kemur inní Júní. Með veiðileyfunum fylgir afnot af veiðihúsi þess félags sem veiðileyfið er keypt af.

KAUPA VEIÐILEYFI Í HLÍÐARVATN