Nú höfum við tekið í sölu, hér á veiða.is, veiðileyfi í Skorradalsvatn. Ekki er um allt vatnið að ræða, heldur hluta þess. Seld eru bæði dagsleyfi og sumarkort. Hérna má ná sér í veiðileyfi, lesa veiðireglurnar og skoða veiðikortin fyrir vatnið.

Skorradalsvatn er í Skorradal í Borgarfirði í um 90 km fjarlægð frá Reykjavík, en Skorradalurinn er ákaflega fallegt svæði og er þar nokkuð mikil sumarhúsabyggð.
Þetta er nokkuð mikið stöðuvatn og liggur það í um 60 metrum yfir sjávarmáli og er um 16 km langt en þó ekki nema um 1 ~ 1.5 km að breidd að mestum parti. Þetta er djúpt vatn eða um 48 metrar þar sem það hefur verið mælt dýpst, en meðaldýptin er um 25 metrar.

Úr vatninu rennur Andakílsá sem er þekkt laxveiðiá, og í vatnið rennur svo Fitjaá sem rennur úr Eiríksvatni.

Í Skorradalsvatni er mikið af fiski, sem að mestu er smábleikja, en þarna eru einnig risavaxnar bleikjur og gríðarvænir urriðar.
Heimildir segja að stærsta veidda bleikja á Íslandi hafi veiðst í Skorradalsvatni, hvenær það var er ekki vitað, en samkvæmt heimildum vó hún um 20 pund. Bleikjur allt að 15 pund veiðast alltaf af og til í vatninu og urriðinn hefur verið allt að 14 pund.
Skorradalsvatn er nokkuð að grunnt næst landi en svo dýpkar það hratt. Helst er að fiskurinn haldi sig í kantinum þarna.