Það var tekið að styttast í júnímánuði, nánar tiltekið var kominn sá 21., þetta var sumarið 2018 og ég hafði mælt mér mót við erlendan veiðimann, G. Pollard, sem átti veiðidag á Munaðarnessvæðinu í Norðurá. Markmiðið var að segja honum til á svæðinu og ekki bara það heldur aðstoða hann við að setja þar í fyrsta Atlantshafslaxinn. Pollard var nýsestur í helgan stein, rétt rúmlega 60 ára gamall, hann hafði veitt víða en aldrei lax. Veitt er með þremur stöngum að hámarki á Munaðarnessvæðinu en þennan dag var hann einn með svæðið. Eiginkona hans, sem var einnig með í för, ætlaði ekki að veiða heldur fara í stutta skoðunarferð um Borgarfjörðinn um morguninn og taka síðan myndir af eiginmanninum við ána á seinni vaktinni.

Við höfðum mælt okkur mót við Baulusjoppuna uppúr kl. 9 en þaðan er örstutt að neðri hluta Munaðarnessvæðisins. Pollard sagðist vera þokkalega vanur kastari, ætti bæði 10 feta stöng fyrir línu 8 og einnig 13 feta tvíhendu, þó hann væri ekki mjög vanur tvíhendukastari. Á Munaðarnessvæðinu getur verið ágætt að geta beitt léttri “tvíhendu” eða switch-stöng, en fyrir vanan einhendukastara þá er fremur auðvelt að veiða flesta staða þar með einhendu.

Þegar við komum að ánni, að Neðristreng og Hallastreng, sáum við lax strax stökkva efst í Neðristrengnum en þar er yfirleitt fyrsta stoppistöðin hjá laxinum á leið upp Norðurá. Þar sem við áttum eftir að græja okkur, fara í vöðlur og setja saman stangir, þá ákvað ég að renna ofar á svæðið, að Raflínustrengnum sem liggur við austurbakkann. Sá strengur er einnig vænlegur stoppistaður fyrir laxinn en þar er áin þrengd með manngerðum grjótgarði sem liggur niður miðja ána. Hægt er að keyra yfir vestari kvíslina á þokkalegum fjórhjóladrifnum jeppa, ef vatnshæðin er ekki of mikil. Þennan dag var áin í 13-14 rúmmetrum, sem er “gott” vatn en alls ekki mikið fyrir Norðurá. Við keyrðum yfir kvíslina og lögðum bílnum á eyjunni við Raflínustrenginn.

Þegar í vöðlur var komið þá settum við saman tvær stangir; gamla Sage DS2 einhendu sem hefur fylgt mér frá árinu 1999, 9 feta fyrir línu 8, og einnig nýja switch-stöng, Redington Chromer, 11,6 fet fyrir línu 6. Flotlínur, u.þ.b. 10 feta langa teiperaða tauma og á endann hnýtt Frances þríkrækja númer 14, á gullkrók.

Pollard byrjaði að kasta svona 15 metrum fyrir ofan efstu grjótin. Ekkert gerðist fyrstu köstin þegar hann veiddi sig niður strenginn en þegar flugan fór að skauta yfir hylinn, um miðja vegu niður rennuna, þá kviknaði heldur betur á honum. Fyrsti laxinn tók alveg fast við austurlandið, stökk tvisvar en hafði greinilega tekið illa, því hann losnaði af eftir nokkrar sekúndur. Eftir að hafa dregið andann djúpt í nokkur skipti og kíkt á flugu og taum, þá var kastað aftur á nákvæmlega sama stað … og aftur tók lax. Þessi tók betur og eftir nokkura mínútna baráttu þá var um fjögurra punda hrygnu landað. Fyrsti Atlantshafslaxinn hans Pollard komin á land.

Eftir stutta stund, þar sem lax og veiðimaður voru myndaðir í bak og fyrir, var laxinum sleppt aftur og veiðimaður greip stöngina að nýju. Fyrstu köstin voru tekin á sama stað og maríulaxinn tók. Ekkert gerðist í nokkrar mínútur en þegar þegar neðar var komið og flugan skautaði fyrir ofan neðstu stóru grjótin, þá kom einn uppúr djúpinu og greip fluguna í yfirborðinu. Sá endaði einnig í háfnum og fékk mynd af sér með veiðimanninum áður en honum var sleppt aftur. Ákváðum við að taka nokkur köst í viðbót en kíkja svo upp á Kálfhylsbrotið í smá stund, en Pollard ætlaði að hitta eiginkonuna í Borgarnesi í hléinu. Klukkan var núna rétt um half tólfen um 10 mínútna gangur var upp að Kálfhylsbroti.

Við gengum hratt upp eftir í gegnum kjarrið sem er fyrir ofan veiðistaðinn “Steininn” og örkuðum beint niður að bekknum sem er við Kálfhylsbrotið. Við ákváðum að nota switch-stöngin í þetta skiptið því við vildum ná lengri köstum en áður, helst alveg upp að austurbakkanum. Við byrjuðum að kasta fyrir miðjum hyl en fórum ekki alveg upp að veiðimörkunum, enda ekki nægur tími til að skanna hylinn að fullu. Ekkert gerðist fyrstu mínúturnar, engar tökur og enginn sporður á lofti. Þegar við ætluðum að fara að hætta, til að ná í Borgarnes innan tilætlaðs tíma, þá var rifið í fluguna og sprækur smálax fór í loftköstum um hylinn. Þeim var líka landað en engar myndir teknar, enda við þegar orðnir of seinir.

Eftir hléið var ákveðið að láta aftur reyna á Raflínustrenginn, enda aðgengið þar gott og reynslan heldue betur góð frá morgninum. Þá var Pollard búinn að ákveða að hætta snemma að veiða, svona um half fimm, þau hjónmin ætluðu að vera komin í bæinn um kvöldmat.

Fyrstu köstin voru tekin aðeins neðar en þau fyrstu um morguninn. Eiginkonan var klár með myndavélina til að fanga augnablikið, en ekkert gerðist í tæpan hálftíma þótt Pollard héldi áfram að kasta. Við fórum að halda að fiskurinn sem var þarna um morguninn væri allur genginn upp eftir.  Eiginkonan fór aftur inn í bíl, enda var byrjað að rigna og rólegt yfir öllu, en þá gerðist það. Við sáum tvo laxa stökkva samtímis við neðstu grjótin og þá var rifið í Collie dog þríkrækjuna sem komin var undir hjá Pollard. Önnur ganga var greinilega að koma í gegnum hylinn.  Grálúsugum smálaxi, hrygnu,  var landað og þau veiðimaðurinn mynduð í bak og fyrir af eiginkonunni sem hafði komið hlaupandi þar að.

Ekki var kastað meira þann daginn, enda veiðimaðurinn saddur og sáttur og tími til komin að renna aftur í bæinn.

Að baki var heldur betur flottur dagur á Munaðarnessvæðinu í Norðurá, fjórir laxar komu á land á um fjórum klukkustundum.

 

Hér má finna veiðileyfi á Munaðarnessvæðið í Norðurá – Stangardagurinn frá ca. kr. 21-31.000.