Veiðin hefst í Ytri Rangá eftir 3 daga en eftirvænting hefur aukist mikið síðustu daga, ekki síst eftir að ljóst var að tímabilið í Eystri Rangá fór vel af stað. Jóhannes Hinriksson, staðarhaldari í Ytri Rangá kíkti niður í Djúpós í morgun til að athuga hvort að laxinn væri mættur. Skyggni var ágætt og niður undir minnismerkinu sá hann 2 laxa vera að skríða upp með bakkanum – hann sá einnig urriða sem voru að veiðum í hylnum.

Það verður spennandi að fylgjast með opnuninni í Ytri Rangá, en hún er um helgina. Við eigum nokkrar stangir lausar í júlí, sjá hér.

Eystri Rangá: Þess má geta að 2 veiðimenn í Eystri Rangá gerðu góða veiði í morgun – náðu 6 löxum, flestum á Strandasíkinu og Hrafnaklettum, en einnig 1 laxi á Hofteigsbreiðunni. Eystri er nú komin yfir 40 laxa.