Nú eru einungis rúmlega 30 dagar þar til veiðitímabilið hefst og eftrirvænting veiðimanna eykst með hverjum deginum, þó veturinn minni enn og aftur á sig. Þann 1. apríl hefst veiða í fjölmörgum silungsveiðiám á Suðurlandi og einnig í nokkrum ám á norðurlandi. Fyrstu daga tímabilsins mun sjóbirtingurinn fá mesta athygli, en oft er hægt að gera góða í urriða og bleikju, snemma á vorin. Gott er að hafa í huga að samkvæmt dagatalinu þá eru nokkrir rauðir dagar í apríl og maí.  Páskarnir eru 9-13. apríl og svo er 23. apríl, 1. maí og 21. maí rauðir dagar.

Hér að neðan má finna upplýsingar um þau vorveiðisvæði sem eru núna á vefnum hjá okkur:

Steinsmýrarvötn – Veiðin í Steinsmýrarvötnum er oft frábær á vorin. Hollin eru iðulega með 40-80 fiska, á 2 dögum. Sjóbirtingur, staðbundinn urriði og bleikja. Nokkur holl laus í April og Mai. Stakar stangir seldar.

Vatnamótin – Vatnamótin eru klárlega eitt besta sjóbirtingsvæði landsins. Veiðin er oft mjög góð, langt fram í maí en það tekur sjóbirtinginn oft smá tíma að fikra sig niður vatnakerfið og niður í sjó. Fluga og öllum fiski sleppt. Örfá holl laus.

Brúará – Veiðin í Brúará er oft mjög góð á vorin. Fluga, maðkur og spúnn. Hérna eru upplýsingar um helstu veiðistaði í Brúarár, fyrir landi Spóastaða. Veiðileyfin í Brúará koma inná vefinn á næstu dögum.

Brunná – Veiðin á vatnasvæði Brunnár og Sandár er oft ævintýraleg á vorin. Það eru blettir sem geyma oft gríðarlega mikið af fiski og mjög stórum fiski í bland – sjóbirtingur, bleikja og staðbundinn urriði. Sjá hér.

Mýrarkvísl – Urriðaveiðin í Mýrarkvísl hefur svo sannarlega sannað sig síðustu ár, ekki síst á vorin. Urriðinn hefur stækkað mikið í ánni og stærstu fiskar sem veiðast eru iðurlega á milli 60-70 cm langir. Fluguveiði. Við eigum lausa daga í vorveiðinni.

Hraun í Ölfusi – Ódýr og skemmtilegur kostur á suðurlandi. Neðsti hluti Ölfusár, vesturbakki. Allt agn leyfilegt.

Urriðasvæðin í Laxá í Aðaldal – Veiðin hefst í Maí á urriðasvæðunum í Laxá í Aðaldal. Veiðin er oft frábær á þessum tíma. Fluguveiði. Nokkrir lausir dagar.

Minnivallalækur – Við eigum nokkra lausa daga í vor í Minnivallalæk. Áin geymir stóra og flotta fiska og hef þú hittir á góðan dag við ána, þá muntu aldrei gleyma þeim degi. Fluga. Sjá hér.

Lónsá á Langanesi – Vorveiðin í Lónsá er oft mjög góð. Mest er veitt á ósasvæðinu, – sjóbirtingur og bleikja en ofar í ánni veiðist einnig staðbundinn urriði og bleikja. Sjá daga og verð hérna.

Galtalækur – Veiði hefst í Galtalæk þann 1. apríl. Fyrsti dagur tímabilsins er m.a. laus. Sjá hér.